Þessu halda Yasmeen Abutaleb og Damian Paletta, blaðamenn hjá Washington Post, fram í nýrri bók, Nightmare Scenario, sem fjallar um síðasta ár Trump í Hvíta húsinu. Auk upplýsinga um samband Trump og Bolton þá skýra blaðamennirnir frá ansi dapurlegum viðbrögðum Trump og stjórnar hans við heimsfaraldri kórónuveirunnar.
Stefna Trump og stjórnar hans varðandi faraldurinn var að sögn höfundanna í fullkominni upplausn og léleg og komið var í veg fyrir að heilbrigðisyfirvöld gætu veitt almenningi réttar upplýsingar um faraldurinn.
Trump er sagður hafa lagt til að smitað fólk yrði sent í fangabúðirnar í Guantanamo á Kúbu en þar eru meintir hryðjuverkamenn í haldi.
Trump rak Bolton úr starfi þjóðaröryggisráðgjafa 2019 eftir langvarandi deilur þeirra. Ári síðar skrifaði Bolton bók um tíma sinn sem þjóðaröryggisráðgjafi Trump og kom fram í viðtölum þar sem hann varaði við því að fjögur ár til viðbótar með Trump í Hvíta húsinu myndu hafa hörmungar í för með sér fyrir Bandaríkin.
Trump reyndi að stöðva útgáfu bókarinnar en hafði ekki erindi sem erfiði. Hann sagði bókina vera „hreinan skáldskap“ og skrifaða af „sjúkum hvolpi“.
Í bókinni kemur einnig fram að Trump hafi í upphafi faraldursins gert grín að veirunni og að fólki sem smitaðist af henni. Því er lýst að á fundi 2020 hafi Larry Kudlow hóstað og hafi fundargestir stífnað upp við það. „Trump veifaði höndunum fyrir framan andlit sitt eins og hann væri í gríni að reyna að bægja veirum frá og síðan sagði hann: „Ég er bara að grínast. Larry fær ekki COVID. Hann mun sigra það með bjartsýni sinni.“ Síðan bætti hann að sögn við: „John Bolton . . . Vonandi tekur COVID-19 John.“