Niðurstöður brasilísku rannsóknarinnar voru nýlega birtar í New England Journal of Medicine. Rannsóknin beindist að lyfinu tofacitinib sem lyfjafyrirtækið Pfizer selur undir heitinu Xeljanz. 289 brasilískir sjúklingar, sem allir voru með lungnabólgu, tóku þátt í rannsókninni. Að sögn Pfizer þá fækkaði dauðsföllum við notkun lyfsins sem og hættunni á að fólk glímdi við öndunarörðugleika.
Helmingur þátttakendanna fékk eina töflu af Xeljanz tvisvar á dag auk almennrar meðferðar gegn ofvirku ónæmiskerfi. Hinn helmingurinn fékk lyfleysu og almenna meðferð gegn ofvirku ónæmiskerfi.
Eftir 28 daga voru 18,1% þeirra sem fengu Xeljanz látnir eða höfðu glímt við öndunarörðugleika. Í samanburðarhópnum var hlutfallið 29%. Hér er því um að ræða 63% tölfræðilegan mun.
Sjúklingar með öndunarörðugleika voru þeir sem þurftu annað hvort að fá súrefnisgjöf eða vera í öndunarvél. Á þessum 28 dögum létust 2,8% þeirra sem fengu lyfið en 5,5% þeirra sem fengu lyfleysuna. Alvarlegar aukaverkanir komu fram hjá 14,1% þátttakendanna sem fengu lyfið en hjá 12% þeirra sem fengu lyfleysu.