„Lisa Murkowski er ekki góð fyrir Alaska,“ segir í yfirlýsingu frá Trump. „Murkowski verður að hætta! Kelly Tshibaka er frambjóðandinn sem getur sigrað Murkowski og það mun hún gera,“ segir einnig í yfirlýsingunni.
Með þessu varð Murkowski óvinur Trump númer eitt þessa dagana og kemur það svo sem ekkert á óvart. Trump, sem er valdamesti Repúblikaninn, er þekktur fyrir hefnigirni sína og henni fær Murkowski nú að kenna á. Með stuðningi sínum fer Trump einnig gegn Mitch McConnell, leiðtoga Repúblikana í öldungadeildinni, sem hefur lýst yfir stuðningi við Murkowski.
Trump hefur látið óánægju sína með Murkowski í ljós í marga mánuði en ástæðan er að hún er meðal þeirra fáu þingmanna Repúblikana í öldungadeildinni sem greiddu atkvæði með ákæru á hendur honum í tengslum við hans þátt í árásinni á þinghúsið í Washington þann 6. janúar.
Það að Trump berjist gegn ákveðnum frambjóðanda í forvali flokksins ætti að valda viðkomandi áhyggjum en CNN segir að Murkowski þurfi kannski ekki að hafa svo miklar áhyggjur, hún eigi væntanlega góða möguleika á að sigra á næsta ári. CNN segir að ástæðurnar fyrir þessu séu meðal annars að hún hefur setið á þingi síðan 2002 og að faðir hennar Frank, sat í öldungadeildinni áður fyrr og var ríkisstjóri í Alaska. Það þykir einnig auka möguleika hennar að forkosningarnar í Alaska eru öllum opnar og taka báðir flokkarnir þátt í þeim. Þeir fjórir frambjóðendur sem fá flest atkvæði, óháð hvaða flokki þeir koma úr, verða síðan í framboði til þings.