CNN segir að FBI telji að stuðningsmenn QAnon séu byrjaðir að efast um áætlun hins dularfulla Q sem er upphafsmaður samsæriskenningahreyfingarinnar. Miðpunktur áætlunar hans er að Donald Trump verði settur aftur í embætti forseta og að pólitískir andstæðingar hans verði dregnir fyrir dóm.
Enn eiga spádómar Q eftir að rætast en það hefur ekki orðið til þess að draga úr trú stuðningsmanna QAnon á spádóma hans og samsæriskenningar. FBI telur að sífellt fleiri stuðningsmenn samsæriskenninga hans séu nú reiðubúnir til að taka málin í eigin hendur en það getur leitt til ofbeldisverka.
Segir FBI að „nethermenn“ QAnon muni hugsanlega færa sig af netinu yfir í raunheiminn og ráðast á hina svokölluðu elítu, til dæmis Demókrata og aðra pólitíska andstæðinga, í staðinn fyrir að bíða eftir að spádómar Q rætist.
FBI leggur áherslu á að þetta eigi aðeins við um herskáustu stuðningsmenn QAnon, þar á meðal þá sem tóku þátt í árásinni á þinghúsið þann 6. janúar síðastliðinn.
FBI telur að hluti stuðningsmanna QAnon muni líta á valdatöku Joe Biden sem merki um að þeir hafi verið hafðir að fíflum og blekktir og hugsanlega segja skilið við hreyfinguna og kenningar hennar.
Eitt megininntakið í kenningum QAnon er að Donald Trump eigi í harðri baráttu við djöfladýrkandi barnaníðings elítu sem lúti forystu þekktra Demókrata og annarra valdamikilla aðila á vinstri væng stjórnmálanna.