Hann hefur haldið sig nærri Sundarbans, sem er á landamærum Indlands og Bangladess, síðustu árin þar sem hann hefur stundað veiðiþjófnað. Lögreglan segir að hann hafi búið nærri skóginum og hafi margoft náð að flýja undan lögreglunni þegar hún leitaði hans. En nú er ekki annað að sjá en hann endi í fangelsi um langa hríð.
BBC segir að nú séu aðeins nokkur þúsund Bengaltígrar sem lifa frjálsir úti í náttúrunni, flestir þeirra eru í Sundarbans. Dýrin eru vinsæl skotmörk veiðiþjófa sem fá háar fjárhæðir fyrir feld þeirra, bein og kjöt á kínverska svartamarkaðnum og víðar.
Talukder er sagður hafa starfað við hunangssöfnun úr búum villtra býflugna í skóginum en hafi síðan snúið sér að veiðum á tígrisdýrum. Hann er sagður mjög hættulegur og nýtur mikillar virðingar á svæðinu.
Yfirvöld í Bangladess segja að þar í landi séu nú 114 Bengaltígrar og hefur þeim fjölgað um 8 síðan 2019 en þá voru lög varðandi veiðiþjófnað hert til muna.