Ofcom rannsakaði netnotkun Breta í september á síðasta ári þegar harðar sóttvarnaaðgerðir voru í gildi. Niðurstaða rannsóknarinnar er að 26 milljónir einstaklinga hafi horft á klám í mánuðinum. The Guardian skýrir frá þessu.
Pornhub var vinsælasta síðan en hana heimsóttu 15 milljónir Breta og því fékk síðan athygli og áhorf frá fleiri Bretum en stóru sjónvarpsstöðvarnar Sky One, ITV4 og BBC í sama mánuði.
Rannsóknin sýndi að 50% karla skoðuðu klámsíður í mánuðinum en hjá konum var hlutfallið 16%. Ungt fólk var stórtækara í þessu en eldra fólk því 75% ungra karla og þriðjungur ungra kvenna styttu sér stundir yfir klámsíðum í september.
Meðallengd heimsóknanna var 10 mínútur og 20 sekúndur sem er lengri tími en við heimsóknir netnotenda á heimasíður flestu stóru bresku fjölmiðlanna.