Þessar blöðrusprengjur urðu að sögn hersins til þess að tuttugu eldar kviknuðu á ökrum nærri Gaza. Í tilkynningu frá hernum kemur fram að hann sé „undir allar sviðsmyndir búinn, þar á meðal átök í ljósi áframhaldandi hryðjuverkaárása frá Gaza“.
Talsmaður Hamas staðfesti að Ísraelsher hefði gert árásir og sagði að Palestínumenn muni áfram sýna af sér „hugrekki og mótstöðu og verja réttindi sín og heilaga staði í Jerúsalem“.
Ekki hafa borist upplýsingar um mannfall eða hvort einhver hafi særst í árásum Ísraelsmanna.
Vopnahlé hefur verið í gildi á svæðinu síðan 21. maí en þá höfðu hörð átök staðið yfir í 11 daga. 260 Palestínumenn létu lífið í þeim og 13 Ísraelsmenn.