Skilti hefur verið sett upp við bæinn þar sem segir: „Geimverur hafa numið 3 á brott á einni viku. Hvenær ætlar bæjarstjórnin að gera eitthvað?“
Ekki er vitað hver setti skiltið upp. Daily Star skýrir frá þessu.
Ekki kemur fram hvað bæjarstjórnin á að gera til að stöðva þessi meintu brottnám geimvera á íbúum bæjarins.
Á undanförnum árum hafa margir talið sig sjá fljúgandi furðuhluti á þessu svæði og sérstakar heimasíður hafa verið settar upp þar sem fólk getur skráð slíka lífsreynslu.
Daily Star segir að kona að nafni Lisa, sem býr í Solihull, hafi lýst því að hún hafi séð appelsínugulan hringlóttan hlut á lofti yfir svæðinu. Hann hafi farið miklu hraðar en flugvél og þar sem hún búi nærri flugleiðum þá sé hún vön að sjá flugvélar. Hún sagðist hafa horft á hlutinn í nokkrar sekúndur og hafi hann flogið um skýin, síðan minnkað og að lokum horfið. Hún sagðist sannfærð um að þetta væri sönnun þess að vitsmunaverur búi á öðrum plánetum.
Embættismaður hjá Sedgley sagði í samtali við Daily Star að eitthvað væri í gangi varðandi fljúgandi furðuhluti í bænum en enginn vilji stíga fram opinberlega til að staðfesta það. Hvað varðar brottnám á íbúum bæjarins sagðist hann ekki vera „svo viss um að það væri að gerast“.