Á þeim þúsundum ára sem eru liðin síðan menn byrjuðu að temja hunda og halda hunda hafa þeir lært að lesa vel í líkamstjáningu okkar og hafa þróað með sér erfðan hæfileika til að lesa líkamstjáningu okkar. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna við University of Arizona.
„Það voru sannanir fyrir að fullorðnir hundar hefðu greinilega félagslega hæfileika en í rannsókn okkar fundum við sannanir fyrir að hvolpar, eins og fólk, eru líffræðilega tilbúnir til að eiga í félagslegum samskiptum við aðra,“ er haft eftir Emily Bray, doktor í mannfræði í fréttatilkynningu frá háskólanum.
Vísindamennirnir segja að þrátt fyrir að það séu einstaklingsbundnir þættir sem spila inn í samband hunda og manna þá séu að minnst kosti 40% af þessum hæfileikum erfðafræðilegir.
Vísindamennirnir rannsökuðu 375 hvolpa sem voru allir 8 vikna gamlir. Þeir voru af tegundunum golden retriever og labrador. Í tilrauninni fengu þeir það verkefni að finna góðgæti sem var falið undir bolla. Niðurstaðan var að í 70% tilfella var auðveldara fyrir hvolpana að finna góðgæti ef einhver benti á bollann sem það var undir. Í samanburðarhópnum áttu hvolparnir að finna góðgæti hjálparlaust og höfðu aðeins þefskyn sitt sér til aðstoðar. Árangur þess hóps var miklu síðri.