CNN skýrir frá þessu og hefur eftir Nelson, sem er fyrrum þingmaður Flórída og geimfari, að enginn viti, ekki einu sinni í efstu lögum NASA, hvaða hraðskreiðu fljúgandi hlutir það eru sem bandarískir herflugmenn hafa séð á undanförnum árum en þeir geta flogið gríðarlega hratt og breytt um stefnu á örskotsstund. Engin tækni sem við mennirnir ráðum yfir er svo fullkominn, að því að best er vitað.
Hann sagði jafnframt að hann telji ekki að þessir fljúgandi furðuhlutir séu sönnun fyrir því að geimverur séu að heimsækja jörðina, „Ég held að við myndum vita það ef svo væri,“ sagði hann en viðurkenndi um leið að of snemmt væri að afskrifa þann möguleika.
Ummæli hans eru á sömu leið og niðurstaða nýrrar skýrslu varnarmálaráðuneytisins Pentagon, sem verður birt síðar í mánuðinum, að sögn heimildarmanna CNN. Þeir segja að í henni sé komist að þeirri niðurstöðu að ekkert bendi til að fljúgandi furðuhlutir séu geimför vitsmunavera frá öðrum plánetum en um leið kemur að sögn fram að ekki sé vitað hvaðan þessir dularfullu hlutir koma.
„Við vitum ekki hvort þetta eru geimverur. Við vitum ekki ef þetta eru óvinir. Við vitum ekki hvort þetta er sjónblekking,“ sagði Nelson.
Nelson hefur ekki sett sérstakan rannsóknarhóp á laggirnar til að rannsaka fljúgandi furðuhluti en hann hefur gefið starfsfólki NASA fyrirmæli um að kafa ofan í mál tengd fljúgandi furðuhlutum ef þeim þyki þörf á því.