Viðbrögðin við þessum tilslökunum voru þó góð í Kína og hlutabréfaverð í fyrirtækjum sem framleiða og selja leikföng, bleiur, barnamat og barnavagna hækkuðu mikið. Stjórnendur þeirra sjá fram á gyllta tíma ef ákvörðunin skilar sér í auknum barneignum en það er þetta stóra „EN“.
Tímarnir eru breyttir frá því sem var fyrir 40 árum en þá þurftu kínverskar fjölskyldur eiginlega að eiga eins mikið af börnum og hægt var til að tryggja framtíð fjölskyldunnar. Elsta syninum var síðan ætlað að taka yfir ábyrgðin á fjölskyldunni og fyrirtækjum hennar, ef þau voru fyrir hendi.
Á áttunda áratugnum fjölgaði Kínverjum mikið og var þessi mikla fólksfjölgun talin ógn við þróun og efnahagslegan uppgang landsins. Þá tók kommúnistastjórnin upp hina þekktu „eins barns stefnu“. Það var slakað aðeins á henni á síðasta áratug og 2016 var fólki veitt heimild til að eignast tvö börn.
En ef tíðarandinn helst óbreyttur verður allt annað en auðvelt að fá fólk til að eignast þrjú börn og eiginlega bara að fá konur til að eignast börn yfir höfuð. Fæðingartíðnin í Kína er svipuð og í samfélögum þar sem engar takmarkanir eru á barneignum og fæðingartíðnin er mjög lág. Þannig er staðan til dæmis í Japan og Suður-Kóreu þar sem landsmönnum fer fækkandi.
Kínverskt nútímasamfélag er ekki undir það búið að takast á við skyndilega mannfjölgun. Niðurstöður manntals, sem voru birtar í maí, sýna að fólk streymir frá landsbyggðinni til borganna. Unga fólkið flytur og eins og víðast í heiminum hafa ungir borgarbúar ekki sömu hugmyndir um barneignir og afar þeirra og ömmur.
Hu Xijin, aðalritstjóri Global Times, sem er dagblað kommúnistaflokksins, sagði í síðustu viku að breytingar á takmörkunum á fjölda barna þýði í raun fyrir borgarfjölskyldur að ekkert hámark verði lengur á barnafjölda. „Margt veldur því að fjölskyldur velja að eignast bara eitt eða tvö börn og hafa í raun takmarkaðan áhuga á að eignast börn. Þess vegna munu ung pör í borgunum ekki vera reiðubúin til að eignast þrjú börn,“ sagði hann.