Borgarfulltrúarnir vilja nýta tækifærið nú þegar ferðamenn fara að streyma aftur til borgarinnar að heimsfaraldrinum loknum til að breyta ímynd hennar. Þeir vilja gera upp við þær hugmyndir sem margir ferðamenn hafa um borgina, að þar blómstri vændi og kannabisneysla. Af þeim sökum vilja þeir loka Rauða hverfinu og tillaga hefur verið lögð fram í borgarstjórn um að banna sölu á kannabis til ferðamanna. Ekki stefnir þó í að sú tillaga nái fram að ganga í borgarstjórn því margir borgarfulltrúar óttast að slíkt bann verði aðeins til að styrkja glæpasamtök sem geti hagnast á ólöglegri sölu kannabis til ferðamanna.
En hugmyndin um risastóra vændishúsið nýtur meiri stuðnings. Auk vændishússins á byggingin að hýsa nokkra bari og nektardansklúbb. Verið er að skoða hugsanlega staðsetningu byggingarinnar og koma níu staðir til greina. Borgarfulltrúarnir segja að hugmyndin um vændishúsið sé liður í að breyta ímynd borgarinnar í augum ferðamanna en einnig sé þetta hugsað til að vernda vændiskonurnar. „Ef þú gengur um þröngar göturnar sérðu hópa ferðamanna standa framan við gluggana og taka myndir af útlendu konunum og hlæja að þeim,“ sagði Femke Halsema, borgarstjóri, í samtali við The Guardian en þar á hún við að í Rauða hverfinu stilla vændiskonur sér út í glugga vændishúsa og eru þar til sýnis í þeirri von að viðskiptavinir bíti á agnið. „Sem kona get ég ekki sætt mig við að það sé gert lítið úr konum á þennan hátt. Ég get ekki sætt mig við það. Þetta brýtur gegn öllum réttindum kvenna og þeim vilja okkar að auka réttindi vændiskvenna,“ sagði Halsema einnig.