Um 331 milljón býr í Bandaríkjunum. Nú hafa um 105 milljónir lokið bólusetningu og um 147 milljónir hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni.
Á fréttamannafundi sagði Biden að nú væri nóg til af bóluefnum og nú sé áhersla lögð á að sannfæra enn fleiri um að láta bólusetja sig. Ef það tekst verði stórt skref stigið í átt að eðlilegu lífi á nýjan leik í bandarísku samfélagi.
Hann sagði að enn væru of margir á þrítugs- og fertugsaldri sem telji ekki þörf á að láta bólusetja sig. „Ég vil hafa þetta alveg skýrt. Þið hafið þörf fyrir að láta bólusetja ykkur,“ sagði Biden á fundinum og beindi þar orðum sínum að ungu fólki.
Nú verður einnig breytt um stefnu hvað varðar skiptingu bóluefna á milli ríkjanna 50. Með því á að tryggja að meira berist af bóluefnum til ríkja þar sem þörfin er mest. Fram að þessu hefur þeim verið skipt eftir íbúatölu.