Samkvæmt frétt Politico mun Facebook nú hætta að fjarlægja færslur og ummæli þar sem fram eru settar staðhæfingar um að veiran hafi verið búin til af mönnum. Þetta kemur fram í tölvupósti frá talsmanni Facebook til Politico. „Í ljósi yfirstandandi rannsókna á uppruna COVID-19 og á grundvelli ráðlegginga frá sérfræðingum okkar í heilbrigðismálum munum við ekki lengur fjarlægja staðhæfingar um að COVID-19 hafi verið búin til af mönnum,“ segir einnig í tölvupóstinum. Einnig segir að Facebook muni áfram vinna með sérfræðingum í heilbrigðismálum og fylgjast náið með framvindu heimsfaraldursins og uppfæra stefnu sína í samræmi við nýjar staðreyndir.
Á fimmtudaginn sendi Hvíta húsið frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að Joe Biden, forseti hafi beðið leyniþjónustustofnanir um að herða enn frekar vinnuna við að rannsaka hvort kórónuveiran hafi borist í menn frá dýrum eða hvort „rannsóknarstofuslys“ hafi átt sér stað í Kína.
Biden fékk nýlega skýrslu frá leyniþjónustustofnunum um uppruna kórónuveirunnar en í fréttatilkynningunni kemur fram að enn sé þeirri spurningu ósvarað hvort veiran hafi borist úr dýrum í menn eða hvort óhapp í rannsóknarstofu hafi átt sér stað og hrundið heimsfaraldrinum af stað.
Biden gaf leyniþjónustustofnununum 90 daga til að vinna skýrslu um málið.
Þetta gerðist nokkrum dögum eftir að The Wall Street Journal birti frétt um að þrír starfsmenn rannsóknarstofunnar í Wuhan, sem hefur verið nefnd sem hugsanlegur upphafsstaður veirunnar, hafi verið lagðir inn á sjúkrahús í nóvember 2019 með einkenni sem líktust COVID-19. Einnig kemur fram í fréttinni að einnig geti hafa verið um venjuleg flensueinkenni að ræða.