Ítalir hafa glímt við fólksfækkun síðustu árin og ekki dró úr henni á síðasta ári en þá fækkaði Ítölum um 384.000 samkvæmt tölum frá hagstofu landsins, Istat. 120.000 létust af völdum COVID-19 og fæðingum fækkaði mikið.
Istat segir að ekki hafi verið svo mikill munur á fjölda fæðinga og andláta síðan 1918 þegar spænska veikin herjaði á heiminn og varð milljónum að bana. Þá fækkaði Ítölum um 648.000 en 1,3 milljónir Ítala létust það árið og er talið að spænska veikin hafi orðið helmingi þeirra að bana.
Á síðasta ári létust um 764.000 Ítalir og hafa andlátin ekki verið fleiri á einu ári síðan í síðari heimsstyrjöldinni. Þetta var 17,6% aukning frá 2019.
Í upphafi heimsfaraldursins var því spáð að fæðingum myndi fjölga á Ítalíu vegna meiri samveru fólks heima við en það fór ekki svo og í raun var þróunin í hina áttina. Skráðum fæðingum fækkaði um 16.000 á síðasta ári samanborið við 2019 en það svarar til 3,8% fækkunar. Svo lágar fæðingartölur hafa ekki sést í 150 ár.
Mörg pör hafa frestað barneignum vegna fjárhagslegrar óvissu sem fylgir heimsfaraldrinum að mati Istat. Það getur einnig hafa haft áhrif að í byrjun faraldursins var ekki vitað hvaða áhrif kórónuveirusmit gæti haft á barnshafandi konur og börn þeirra. Deutsche Welle segir að margir ítalskir félagsfræðingar hafi einnig tekið eftir því að kynhvöt margra Ítala hafi dvínað vegna heimsfaraldursins.
Á Ítalíu er fjöldi giftinga einnig mælikvarði á þróun mannfjölda en á síðasta ári fækkaði giftingum um 47,5% miðað við árið á undan.
Sömu þróun má greina í Frakklandi og á Spáni, þar hefur fæðingum fækkað.