James Melville, skurðlæknir við University of Texas Health Science Center, segist vita um níu svona tilfelli hjá bandarískum COVID-19 sjúklingum. Allir þurftu þeir að vera í öndunarvél og átta þeirra eru svartir. Tveir þeirra fengu að auki hjartaáfall eftir að þeir veiktust af COVID-19.
Melville og Simon Young, samstarfsmaður hans sem starfar hjá UTHealth Schoold of Dentistry í Houston, reyna nú að komast að af hverju makroglossi leggst á suma sjúklinga.
Einkennið gerir vart við sig seint á veikindatímabilinu en þá bólgnar tungan sjúklinganna mjög og þeir geta ekki borðað né talað. „Tungan er eins og vatnsblaðra,“ sagði Melville í samtali við Click2Houston.
Í samtali við Newsweek sagði hann að makroglossi hafi mikil áhrif á sálarlíf sjúklinga því þeir séu nánast taldir vera furðuverk. Hann sagði jafnframt að mikill sársauki fylgi því þegar tungan bólgnar svona mikið. „Tungan þornar alveg og því þarf að pakka henni inn til að halda henni rakri svo hún springi ekki öll og það blæði ekki úr henni,“ sagði hann.
Melville sá fyrsta tilfelli makroglossi af völdum COVID-19 í október þegar Mary Ann Jones setti sig í samband við hann og sagði að sonur hennar, Anthony Jones, væri með tungu sem væri jafn stór og matardiskur. Anthony var þá nýútskrifaður af sjúkrahúsi en hann hafði verið í öndunarvél í einn mánuð vegna COVID-19. Þegar hann kom heim byrjaði tungan að stækka og varð á endanum risastór. Mary Ann hafði samband við Melville því hann hafði rannsakað makroglossi áður. Melville gerði aðgerð á Anthony og tókst hún vel og innan viku gat Anthony borðað og talað á nýjan leik.
Frá í október hafa Melville og samstarfsfólk hans gert aðgerðir á átta öðrum COVID-19 sjúklingum sem höfðu fengið makroglossi og tókust allar aðgerðirnar vel.
Í samtali við Houston Chronicle sagði Melville að ekki sé vitað hvernig COVID-19 tengist makroglossi en sagðist telja líkleg að bólgnar frumur, sem hafa fundist í tungum sjúklinganna, geti veitt svar við því.