Í skýrslu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu, dagsettri 15. janúar, kemur fram að þrír starfsmenn rannsóknarstofunnar hafi leitað á sjúkrahús í nóvember 2019 og hafi þeir verið með einkenni COVID-19. Wall Street Journal skýrir frá þessu. Þetta hefur blásið nýju lífi í kenningar um að veiran hafi sloppið út frá rannsóknarstofunni fyrir mistök.
Áður hafði komið fram að í minnisblaði bandarískra stjórnvalda var skýrt frá því að nokkrir starfsmenn rannsóknarstofunnar hefðu veikst haustið 2019 og hafi verið með „einkenni sem bæði COVID-19 og venjuleg inflúensa geta valdið“. Nú fer Wall Street Journal nánar út í þetta og segir að um þrjá vísindamenn hafi verið að ræða og að þeir hafi veikst samtímis í nóvember 2019 og hafi verið svo veikir að þeir þörfnuðust sjúkrahúsinnlagnar.
Á laugardaginn sögðu bandarískir fjölmiðlar frá því að Anthony Fauci, helsti smitsjúkdómasérfræðingur Bandaríkjanna, sé ekki sannfærður um að kórónuveiran hafi þróast á náttúrulegan hátt. Hann er sagður hafa lýst yfir efasemdum um það og telji að halda eigi áfram að rannsaka hvað gerðist í Kína og að þeirri rannsókn verði ekki hætt fyrr en niðurstaða liggur fyrir. Þetta sagði hann á fundi hjá Politifact fyrr í mánuðinum. Kínverjar hafa staðfastlega neitað því að veiran hafi sloppið út frá rannsóknarstofunni í Wuhan. Shi Zhengli, yfirmaður rannsóknarstofunnar, sagði starfsfólki Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO fyrr á árinu að enginn starfsmaður hefði greinst með mótefni gegn kórónuveirunni og að enginn veikindi hefðu komið upp hjá starfsfólkinu.
Starfsfólki WHO var leyft að koma til Kína í janúar til að rannsaka upptök veirunnar og í fyrstu skýrslu rannsóknarhópsins kemur fram að veiran hafi líklega borist frá leðurblökum yfir í fólk með viðkomu í þriðju dýrategundinni. Í skýrslunni kom fram að það væri „mjög ólíklegt“ að veiran hefði borist frá fyrrnefndri rannsóknarstofu. WHO sagði einnig að Kínverjar hefðu ekki viljað veita aðgang að gögnum rannsóknarstofunnar, þar á meðal skráningum á öryggisbrestum. Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, sagði þá að rannsaka þyrfti þátt rannsóknarstofunnar betur.
Kínversk yfirvöld segja að fyrsta þekkta tilfelli COVID-19 hafi komið upp 8. desember 2019 en í skýrslu WHO segir að veiran geti hafa breiðst út í Wuhan áður. 92 tilfelli frá í október og nóvember eru nefnd til sögunnar í skýrslunni og sögð geta hafa verið af völdum kórónuveirunnar.
Peter Daszak, sem var í rannsóknarhópi WHO, sagði í mars að líklega hefði veiran átt upptök sín á dýrabúgörðum sem kínversk yfirvöld lokuðu í febrúar. Þessir búgarðar seldu dýr á dýramarkaði í Wuhan en hann hefur oft verið nefndur sem upphafsstaður veirunnar. Á honum eru margar dýrategundir seldar til matar, þar á meðal margar framandi tegundir.