Samkvæmt nýju lögunum verður fólki heimilt að bera skammbyssur og eiga þær án þess að hafa skotvopnaleyfi og þarf fólk ekki að hljóta þjálfun í notkun þeirra né fara í gegnum svokallaða bakgrunnsskoðun þegar það kaupir þær.
The Guardian segir að samtök lögreglumann séu á móti lögunum og telji þau stofna lífi almennings og lögreglumanna í hættu. Samtök, sem berjast fyrir hertri skotvopnalöggjöf, eru einnig á móti lögunum og benda á ófagra sögu Texas hvað varðar fjöldamorð með skotvopnum, þar á meðal í verslun Walmart í El Paso, kirkju í Sutherland Springs og í menntaskóla nærri Houston.
Skotvopnalöggjöfin í Texas er ein sú frjálslyndasta í Bandaríkjunum. Rúmlega 1,6 milljónir íbúa ríkisins eru skráðir eigendur skammbyssna.
Stuðningsmenn nýju laganna segja að þau gefi fólki betri möguleika á að verja sig á almannafæri og að þau afnemi einnig óþarfa takmarkanir á stjórnarskrárvörðum rétti landsmanna til að eiga og bera skotvopn.
Texas bætist nú í hóp tæplega tuttugu ríkja Bandaríkjanna sem heimila fólki að eiga og bera skammbyssur án mikilla kvaða og verður Texas langfjölmennasta ríkið í þessum hópi. Samtök skotvopnaeigenda, The National Rifle Association, eru meðal þeirra sem styðja lögin og segja það vera eitt mikilvægasta skrefið í sögu Texas hvað varðar réttindi skotvopnaeigenda.
Nú þegar má bera riffla á almannafæri í Texas án þess að hafa til þess sérstakt leyfi. Nýju lögin munu heimila öllum 21 árs og eldri að bera skammbyssur ef þeir hafa ekki hlotið refsidóma.