CNN hefur eftir talsmanni Amazon að framkvæmdir hefjist aftur þegar búið verður að bæta öryggismál á byggingasvæðinu. Fyrirtækið hefur heitið 100.000 dollurum í verðlaun fyrir upplýsingar sem geta leitt til þess að sá eða þeir sem bera ábyrgð á verknaðinum finnist.
Fyrsta ólin fannst 27. apríl en hún hékk úr stálbita á svæði þar sem mörg hundruð starfsmenn margra fyrirtækja fara um daglega. Í kjölfarið var haldinn fundur með starfsmönnum um öryggismál og kynþáttamál en hengingarólar hafa lengi verið merki kynþáttahatara í Bandaríkjunum. 29. apríl fundust fimm ólar til viðbótar á byggingasvæðinu og 19. maí fannst enn ein. Engin skilaboð voru við ólarnar og enginn hefur lýst ábyrgð á hendur sér.
Á fréttamannafundi í síðustu viku sagði Carlos Best, sem starfar sem verkstjóri á byggingasvæðinu og er svartur, að hann hafi upplifað svipuð mál, tengd kynþáttahatri, á byggingasvæðinu áður. Hann sagði að fólk hafi verið með fána Suðurríkjanna á höfuðfötum sínum og á bílum sínum. Hann sagðist einnig hafa heyrt ummæli, sem flokkast sem kynþáttahatur, og hafi þau ekki aðeins beinst gegn svörtu fólki.