Ndrangheta er ein stærsta mafían á Ítalíu og einn stærsti innflytjandi kókaíns til Evrópu frá Suður-Ameríku. Morabito hafði verið eftirlýstur af ítölsku lögreglunni í 22 ár en hann er nú 54 ára. Hann var dæmdur í rúmlega 30 ára fangelsi af ítölskum dómstólum fyrir fíkniefnasmygl og önnur afbrot. Hann var þó ekki viðstaddur réttarhöldin því hann var á flótta.
Hann var handtekinn í Úrúgvæ 2017 en tókst að flýja úr fangelsi tveimur árum síðar ásamt þremur samföngum sínum.
En á mánudaginn handtók brasilíska lögreglan hann og tvo aðra útlendinga á hóteli í Joao Pessoa sem er í norðausturhluta landsins. Um samvinnuverkefni ítölsku og brasilísku lögreglunnar var að ræða og tóku ítalskir lögreglumenn þátt í aðgerðinni á mánudaginn. Annar hinna tveggja, sem voru einnig handteknir, er einnig eftirlýstur af ítölsku lögreglunni.