Óhætt er að segja að Barack Obama, fyrrum forseti, hafi hellt olíu á eldinn á mánudaginn þegar hann var gestur James Corden í „The Late Late Show“ en þar ræddu þeir meðal annars um fljúgandi furðuhluti, geimverur og hvað Obama veit um þessi mál.
Obama hafði áður rætt þessi mál, þar á meðal við Corden, og sagt að hann gæti ekki sagt neitt um hvað stjórnvöld vissu um fljúgandi furðuhluti og geimverur. Það gat hann ekki heldur á mánudaginn en þó veitti hann ákveðnar upplýsingar sem samsæriskenningasmiðir hafa væntanlega drukkið í sig af ákefð.
„The Late Late Show“ er venjulega þáttur á léttu nótunum og svo var einnig á mánudaginn en skyndilega breytti Obama um takt þegar hann fór að ræða um fljúgandi furðuhluti og geimverur. „Sannleikurinn er, og ég er alvarlegur núna, er að það eru til upptökur, við höfum séð fljúgandi furðuhluti sem við gátum ekki fundið neina skýringu á. Við gátum ekki skýrt hvernig þeir hreyfðust, flugmynstur þeirra og svo framvegis,“ sagði hann.
Hann sagði að hugsanlega væru einhverjar þeirra kenninga sem til eru um fljúgandi furðuhluti og geimverur sannar en hann sló því föstu að ekki væri til nein leynileg rannsóknarstöð í Bandaríkjunum þar sem geimverur og fljúgandi furðuhlutir eru rannsakaðir.