Þetta er að minnsta kosti staðhæft í nýrri bók, „Battle for the Soul: Inside the Democrats‘ Campaigns to Defeat Donald Trump“ eftir blaðamanninn Edward-Isaac Dovere. The Guardian hefur fengið útdrátt úr bókinni. Dovere hefur fylgst náið með Demókrataflokknum síðustu 15 árin og þekkir því vel til mála þar á bæ.
Í bókinni heldur hann því fram að Obama hafi ekki skafið utan af því þegar hann lýsti eftirmanni sínum fyrir ráðgjöfum og fjárhagslegum bakhjörlum Demókrataflokksins. Hann er meðal annars sagður hafa sagt Trump vera „Kynþáttahatara, klikkhaus og spilltan andskota“.
Samband Obama og Trump hefur verið stirt síðan Trump gerðist sjálfskipaður talsmaður samsæriskenningar um að Obama sé ekki fæddur í Bandaríkjunum og því í raun ekki kjörgengur sem forseti landsins. Dovere segir að Obama hafi þó frekar viljað fá Trump í Hvíta húsið en Ted Cruz sem barðist við Trump um að verða forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins. En eftir því sem á leið og Trump fór að koma stefnumálum sínum í framkvæmd jukust áhyggjur Obama. „Ég hélt að þetta gæti ekki farið svona illa,“ er meðal þess sem hann er sagður hafa sagt.