Broom hélt alltaf fram sakleysi sínu en DNA-rannsókn, sem var gerð 2003, hreinsaði hann ekki af sök í málinu. Hann sat á dauðagangi í 24 ár og beið örlaga sinna.
Að lokum rann sá dagur upp sem binda átti enda á líf hans en það var 15. september 2009. Broom var ólaður á aftökubekk og aftökuteymið byrjaði að leita að æð sem hægt væri að dæla blöndu efna, sem áttu að binda enda á líf hans, í. En þá hófst vandræðagangurinn. Það var sama hvað aftökuteymið reyndi, það fann ekki æð sem var hægt að dæla blöndunni í. Eftir nokkrar árangurslausar tilraunir lagði Broom sitt af mörkum til að aðstoða teymið og lagðist á hliðina og hreyfði vinstri handlegginn og fingurna til að reyna að gera æðar sýnilegar.
Aftökuteymið stakk hann margoft og á endanum hitti það á æð en þegar byrja átti að dæla í hana lokaðist hún. Þegar hér var komið við sögu þoldi Broom ekki meira af þessum andlegu og líkamlegu pyntingum og byrjaði að gráta. Þá var skipt um aðferð og hann látinn sitja á meðan reynt var að finna æðar í fótleggjum hans. Það gekk enn verr og olli honum miklum sársauka. Í eitt sinn var til dæmis stungið í bein í stað æðar.
Eftir tveggja klukkustunda tilraunir gafst aftökuteymið upp en þá var búið að stinga Broom 18 sinnum.
Í kjölfarið frestaði ríkisstjóri Ohio aftökunni í eina viku að kröfu lögmanna Broom sem sögðu aftökutilraunina hafa verið grimmdarlega og óvenjulega refsingu. Embættismenn fengu vikufrest til að finna aðferð til að taka Broom af lífi á hátt sem myndi ekki brjóta gegn stjórnarskránni. Það tókst þeim ekki og því var aftökunni frestað ótímabundið.
Á næstu árum börðust mannréttindasamtökin Amnesty International fyrir því að lífi Broom yrði þyrmt. Heimildarmynd var gerð um mál hans og Broom skrifaði bók reynslu sína.
Á endanum fór Broom með mál sitt fyrir dóm og krafðist þess að fallið yrði frá aftöku hans fyrir fullt og allt því það myndi brjóta gegn stjórnarskránni að stefna lífi hans tvisvar í hættu. Hæstiréttur í Ohio féllst ekki á þetta og í mars 2016 skipaði hann yfirvöldum að reyna aftur að taka Broom af lífi.
Aftakan átti að fara fram 17. júní 2020 en Mike DeWine, ríkisstjóri, frestaði henni í apríl 2020 þar sem ekki reyndist unnt að fá lyf, sem nota átti við aftökuna. Ný tímasetning var ákveðin og átti að taka Broom af lífi 16. mars 2022. En af því verður ekki því Broom lést 28. desember síðastliðinn af völdum COVID-19. Hann var 64 ára.