Landið er meðal þeirra landa sem hafa sloppið einna best í gegnum faraldurinn. Allt frá því í mars á síðasta ári hafa stjórnvöld nýtt sér staðsetningu landsins sem er heil heimsálfa og eyja langt úti í hafi. Þau hafa einfaldlega lokað landinu og ekki er útlit fyrir að hvikað verði frá því. Landið verður lokað fram á mitt næsta ára nema hvað Ástralar og fólk með varanlegt dvalarleyfi má koma til landsins. Almenn sátt hefur verið um þessa stefnu en nú er farið að bera á gagnrýni á hana frá atvinnulífinu og sumum stjórnmálamönnum. Þetta kom berlega í ljós í apríl þegar ríkisstjórnin ákvað að banna allar komur fólks frá Indlandi í þrjár vikur. Bannið náði einnig til ástralskra ríkisborgara. Brot á þessu banni varðaði allt að fimm ára fangelsi.
Bannið var mikið áfall fyrir þann stóra hópa Ástrala sem er af indversku bergi brotinn en í gegnum faraldurinn hefur það verið viðkvæðið að ástralskir ríkisborgarar gætu alltaf komið heim. En nú eru um 9.000 Ástralar fastir á Indlandi vegna bannsins og það þrátt fyrir að því hafi verið aflétt.
Flugsamgöngur á milli landanna hófust aftur á laugardaginn. Þegar fyrsta vélin frá Indlandi lenti í Darwin voru 70 laus sæti í henni. Fólkið sem hafði greitt fyrir þau varð eftir á Indlandi því það greindist með kórónuveiruna skömmu fyrir brottför, svo skömmu áður að ekki var tími til að selja öðrum sætin.
Nú hafa tveir Ástralar látist af völdum COVID-19 á Indlandi. Þeir komust ekki heim og smituðust af kórónuveirunni og létust síðan. 173 börn eru föst á Indlandi án foreldra sinna. Sum höfðu verið í fríi hjá öfum sínum og ömmum. Það stefnir í að þau hitti foreldra sína ekki á næstunni en sum þeirra hafa ekki séð foreldra sína í tæp tvö ár. Fyrir þá 9.000 Ástrali, sem eru á biðlista eftir flugi heim, er útlitið dökkt. Fáar flugferðir eru í boði og miðað við framboðið þessa dagana mun taka um eitt ár að koma þeim öllum heim.