Saksóknaraembættin hafa síðasta árið verið með sitthvora rannsóknina í gangi en nú taka þau höndum saman. Þetta getur endað með að Donald Trump verði stefnt fyrir rétt í einkamáli þar sem bótakröfur verða lagðar fram og að hann verði dreginn fyrir dóm í hreinu sakamáli.
Málið snýst um hvort fyrirtækjasamsteypa Trump hafi veitt lánveitendum og tryggingafélögum rangar upplýsingar um verðmæti fasteigna og annarra eigna og hvort samsteypan hafi greitt það sem henni ber að greiða í skatt.
CNN segir að saksóknarar séu nú að fara í gegnum „milljónir skjala“, þar á meðal skattaskýrslur Trump. Michael Cohen, fyrrum lögmaður Trump, sagði fyrir tveimur árum þingnefnd að Trump hefði óhreint mjöl í pokahorninu hvað varðar eitt og annað tengt rekstri fyrirtækjasamsteypunnar. Hann sagði að í ársreikningum hafi verðmæti eigna verið rangfært til að hægt væri að fá hagstæð lán og tryggingar en einnig hafi verðmæti eigna verið vantalið í ársreikningum til að komast hjá greiðslu fasteignaskatta.