Til að geta uppfyllt kröfur um viðbúnað sjúkrahúsa eiga að minnsta kosti 20% gjörgæslurýma að vera laus hverju sinni. Sú staða hefur ekki verið uppi svo vikum skiptir.
Álagið á deildirnar er nú svo mikið að samtök svæfinga- og gjörgæslulækna hvetja yfirvöld til að leita aðstoðar hjá nágrönnunum í Danmörku og Noregi. „Við ættum að biðja nágrannaríkin um aðstoð. Við erum komin langt yfir það sem við ráðum við,“ sagði Annette Nyberg, formaður samtakanna og yfirlæknir á Alingsås sjúkrahúsinu.
Þann 8. apríl voru 12% rýma á gjörgæsludeildunum laus en síðan hefur hlutfallið verið á bilinu 14 til 18%. Dagens Nyheter segir að þessar tölur geti hugsanlega verið enn lægri því þótt gjörgæslurými sé skráð sem laust þá sé það ekki endilega þannig. Oft er það að sögn þannig að þegar sjúklingur flyst úr gjörgæslurými sé það skráð laust og það jafnvel þótt annar sjúklingur sé þá þegar á leið í það. Álagið er því hugsanlega enn meira en talið er.