„Dóttir mín, hvar er afgangurinn af henni?“ skrifaði MK23ever, sem er notandanafn þess sem setti myndina inn á Reddit, við hana. Hún vakti strax mikla athygli og margir hafa tjáð sig um hana. Eftir að Tim Kietzmann, prófessor við Donders Institute for Brain, Cognition and Behaviour deildi myndinni á Twitter var eins og flóðgáttir opnuðust hvað varðar viðbrögð fólks við myndinni.
Fljótlega fékk stúlkan á myndinni viðurnefnið „Gangstéttarstúlkan“.
Margir hafa velt fyrir sér hvort stúlkan sé föst á milli gangstéttarsteina og steypu. En sem betur fer þá er það nú ekki svo.
Þeir sem skoða myndina náið sjá að stúlkan stendur við hlið steinveggjar sem er eins á litinn og gangstéttarsteinarnir á bak við hana. Hér er því ekki um neitt annað að ræða en sjónblekkingu sem verður öflugri af því að stúlkan styður olnboga á topp steinveggjarins og því virðast veggurinn og gangstéttarsteinarnir vera eitt.