New York Post skýrir frá þessu. „Kenningar um að veiran hafi fyrir slysni sloppið út af rannsóknarstofu og borist í fólk er ekki útilokuð,“ segja vísindamennirnir í bréfi sem var birt í vísindaritinu Science fyrir helgi. „Vitneskja um hvernig COVID-19 varð til er mikilvæg til að koma í veg fyrir heimsfaraldra í framtíðinni,“ segir einnig í bréfinu sem var skrifað í kjölfar rannsóknar WHO og kínverskra yfirvalda.
Í rannsókn WHO og kínverskra yfirvalda er komist að þeirri niðurstöðu að faraldurinn hafi líklega átt upphaf sitt í að fólk smitaðist af veirunni frá dýri sem hafði smitast af henni frá leðurblöku. Í niðurstöðum rannsóknarinnar segir að „mjög ólíklegt“ sé að veiran hafi verið búin til í tilraunastofu.
Vísindamennirnir 18 segja að ekki sé hægt að útiloka að veiran hafi verið búin til í tilraunastofu því málið hafi ekki verið rannsakað til fulls. Aðeins 4 blaðsíður í 313 síðna skýrslu WHO eru helgaðar umfjöllun um hvort veiran hafi verið búin til af mönnum.