Aðfaranótt laugardags lenti kínverska geimfarið Tianwen-1 á Mars. Með í för er 240 kílóa bíll, Zhurong, sem á meðal annars að leita að ummerkjum um líf á plánetunni næstu þrjá mánuðina. Lendingin gekk vel og náðu Kínverjar því sögulegum áfanga en þeir urðu þriðja þjóðin sem hefur tekist að lenda heilu og höldnu á Mars. Áður höfðu Bandaríkjamenn og Sovétmenn lent þar.
Geimfarið fór á braut um Mars um miðjan febrúar eftir um sex mánaða ferð frá jörðinni. Frá upphafi var stefnt á lendingu eftir nokkra mánuði á sporbraut um Mars. Þetta er fyrsta geimferð Kínverja til Mars.
Kínverjar láta sífellt meira að sér kveða í geimnum og telja geimferðaáætlun sína gefa þeim tækifæri til að komast í hóp leiðandi þjóða á sviði geimferða.