The Wall Street Journal skýrir frá þessu og hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum sem þekkja til málsins.
Talskonar Gates sagði í samtali við The Wall Street Journal að Gates hafi átt í ástarsambandi fyrir 20 árum en því hafi lokið í góðu. Hún vísaði því á bug að ákvörðun Gates um að víkja úr stjórninni tengist því máli nokkuð.
Blaðið segir að sumarið 2019 hafi stjórn Microsoft fengið lögfræðistofu til að rannsaka hvort Gates hefði átt í ástarsambandi við starfskonuna. Það var gert í kjölfar þess að konan, verkfræðingur, sendi stjórninni bréf þar sem hún staðhæfði að hún hefði árum saman átt í ástarsambandi við Gates. Blaðið segir að Gates hafi sagt sig úr stjórninni áður en rannsókninni lauk og því hafði stjórnin ekki tekið ákvörðun í málinu.
Fyrr í mánuðinum var skýrt frá því að Bill og Melinda Gates væru að skilja eftir 27 ára hjónaband. Þau ætla þó að sögn að halda áfram samstarfi sínu í Bill & Melinda Gates Foundation sem eru mannúðarsamtök sem starfa að málum víða um heim.
The Wall Street Journal skýrði frá málinu í gær og New York Times fjallaði einnig um Gates í gær og sagði að hann hafi árum saman haft orð á sér fyrir „vafasama hegðun í tengslum við vinnuna“ og að hann hafi oft „reynt við“ starfsfólk hjá Microsoft og hjá Bill & Melinda Gates Foundation.
New York Times segir einnig að Melinda hafi verið ósátt við hvernig eiginmaður hennar tók á kvörtunum um kynferðislega áreitni yfirmanns hjá Microsoft. Því máli hafi lokið með leynilegu samkomulagi í staðinn fyrir rannsókn utanaðkomandi aðila. Hún var að sögn einnig óánægð með að eiginmaður hennar hafði umgengist barnaníðinginn Jeffrey Epstein. Kunningsskapur þeirra hófst að sögn 2011 en þremur árum áður hafði Epstein játað að hafa greitt barnungum stúlkum fyrir kynlíf.
Ekki er vitað hvort Melinda vissi um framhjáhald eiginmanns síns og hvort það mál hafi átt þátt í skilnaði þeirra.
Talskona Gates vísaði frétt New York Times á bug og gagnrýndi blaðið fyrir að vitna í ónafngreinda heimildarmenn.