Afturköllunin er sögð vera til að koma í veg fyrir „innflutning á kórónuveirunni“. 21 Kínverji hafði fengið leyfi til að klífa fjallið að þessu sinni en þeir verða nú að bíta í það súra epli að fá ekki að fara upp á fjallið.
Fyrir rúmri viku skýrðu kínverskir ríkisfjölmiðlar frá því að stefnt væri að því að koma upp einhverskonar „aðskilnaðarlínu“ á toppi fjallsins til að koma í veg fyrir að fjallgöngumenn, sem koma frá Nepal, og þeir sem koma frá Tíbet gætu hist á toppnum. Þetta átti að gera til að koma í veg fyrir að kórónuveiran smitaðist á milli fólks á toppi fjallsins.
Kórónuveirusmitum hefur fjölgað mikið í Nepal að undanförnu og hafa rúmlega 8.000 smit greinst á sólarhring að undanförnu. Þetta hefur orðið til þess að sum fyrirtæki, sem skipuleggja ferðir upp á topp Everest, hafa hætt við þær.
Smit hafa einnig komið upp í grunnbúðunum við fjallið og ríkir mikil óvissa um framhald fjallgöngutímabilsins. 400 fjallgöngumenn hafa fengið leyfi yfirvalda í Nepal til að ganga á fjallið að þessu sinni.