Ástæðan fyrir vinsældum og velgengni Trump á Twitter og Facebook var hversu margir fylgdust með síðum hans. hann var með 88 milljónir fylgjenda á Twitter, 32 milljónir á Facebook og 24 milljónir á Instagram. Á YouTube var hann með eina milljón fylgjenda.
En það er hugsanlega fleira sem gerir Trump erfitt fyrir með að koma boðskap sínum á framfæri. Hann er ekki lengur forseti og því hefur boðskapur hans minna vægi en áður. Stuðningsfólk hans verður einnig að átta sig á að hann er kominn með bloggsíðu. Það skemmir síðan fyrir honum á þeim vettvangi að ekki er hægt að skrifa athugasemdir við færslur hans, bloggsíðan er eingöngu til að koma boðskap hans á framfæri, sem sagt einstefnumiðill. Það er þó hægt að deila færslum hans á öðrum samfélagsmiðlum en það eru fáir sem gera það að sögn greiningarfyrirtækisins BuzzSumo.
Jeremy Blackburn, prófessor í tölvunarfræði við Binghamton háskólann í New York, segir að Trump geri sjálfum sér erfitt fyrir ef hann vilji ná til fjöldans. „Þessi nýi vettvangur Trump er einfaldlega frumstæður tæknilega séð,“ sagði hann.
Tæknin hefur heldur ekki verið í liði með Trump. Á laugardaginn hrundi bloggsíðan eftir að hann setti inn færslu með staðlausum fullyrðingum um að kosningasvindl hefði átt sér stað í Arizona í forsetakosningunum. Var síðan óvirk í margar klukkustundir eftir það.