Indland er nú miðpunktur heimsfaraldursins. Rúmlega 400.000 smit greinast á sólarhring og hafa rúmlega 22 milljónir landsmanna smitast af veirunni. Samkvæmt opinberum tölum látast um og yfir 4.000 manns á sólarhring af völdum COVID-19 en margir draga þessar tölur í efa og segja þær vera mun hærri. Hefur ríkisstjórnin verið sökuð um að „fegra“ þær vísvitandi.
Rúmlega 900.000 manns þarfnast súrefnisgjafar í landinu og 170.000 eru í öndunarvélum. Samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum greinast um 22% allra sýna jákvæð. Þetta þýðir að öllum líkindum að ekki greinist allir þeir sem eru smitaðir að sögn háskólans.
Nú hafa rúmlega 240.000 manns látist af völdum COVID-19 á Indlandi, samkvæmt opinberum tölum, og er landið nú í þriðja sæti yfir fjölda látinna. The Institute for Health Metrics and Evaluation hjá Washington háskóla telur að í ágúst verði fjöldi látinna kominn í eina milljón. „Ef þetta gengur eftir mun ríkisstjórn Modi bera ábyrgð á embættisafglöpum sem urðu að harmleik,“ segir í the Lancet.
Í greininni segir að Indverjar hafi „glatað góðum árangri sínum í upphafi“ við að hafa stjórn á faraldrinum. Ríkisstjórnin hafi brugðist með því að gefa í skyn að sigur hafi unnist á veirunni en það hafi ýtt undir andvaraleysi og ónægar ráðstafanir og hægt á bólusetningaáætlun landsins. Einnig hafi „ofursmitatburðum“ verið leyft að fara fram, þar á meðal trúarhátíðum og pólitískum fjöldasamkomum. Að auki hafi ríkisstjórnin reynt að berjast gegn faraldrinum á netinu með því að biðja Twitter að fjarlægja tíst um COVID-19, þar á með tíst sem voru gagnrýnin í garð Modi. „Tilraunir Modi til að þagga gagnrýni niður sem og opinskáa umræðu í faraldrinum eru óafsakanlegar,“ segir í greininni.