Í nýrri bók, Lørenskog-mysteriet sem er eftir tvo fréttamenn hjá TV2 í Noregi, kemur fram að framburður þriggja lykilvitna hafi ýtt rannsókn lögreglunnar í ákveðinn farveg. Vitnin gáfu sig fram í kjölfar blaðamannafundar lögreglunnar þann 9. janúar 2019 þar sem skýrt var frá hvarfi Anne-Elisabeth en rannsókn lögreglunnar hafði farið fram með mikilli leynd fram að því.
Það var Tom sem tilkynnti um hvarf eiginkonu sinnar og afhenti henni bréf með kröfu um lausnargjalds sem hann sagðist hafa fundið á heimili þeirra hjóna. Í því kom einnig fram að Anne-Elisabeth myndi hafa verra af ef hann setti sig í samband við lögregluna. Af þeim sökum fór rannsóknin fram með mikilli leynd.
En það voru ekki allir vinir Anne-Elisabeth sem trúðu því sem Tom hafði að segja um málið. Vitnin þrjú voru öll með Anne-Elisabeth í félagsskap einum. Þau hittu hana nokkrum vikum áður en hún hvarf. Eitt vitnanna sagði að hún hefði verið „niðurbrotin og döpur“. Að sögn sagði hún mörgum vinum sínum að það væru miklir erfiðleikar í hjónabandinu og að þeir ættu rætur að rekja til margra ára gamalla deilna þeirra hjóna.
Kona, sem þekkti Anne-Elisabeth um árabil, sagði lögreglunni að hún hefði aldrei áður séð vinkonu sína í ástandi sem þessu. Hún sagði að hún hafi verið særð en ákveðin. Það hafi verið eins og hún „hefði fengið nóg“ og væri reiðubúin til að sækja um skilnað.
Vitnin þrjú gátu ekki fengið það til að ganga upp að Anne-Elisabeth hefði verið rænt af óþekktum mönnum sem hefðu síðan krafist lausnargjalds. „Svo tilviljanakenndur er heimurinn ekki,“ sagði eitt vitnanna.
Framburður þessara þriggja vitna varð síðan mikilvægur hluti af sönnunargögnunum gegn Tom Hagen sem var handtekinn fyrir rúmlega ári síðan en var látinn laus úr gæsluvarðhaldi eftir að hæstiréttur hnekkti úrskurði undirréttar um gæsluvarðhald yfir honum. Hann er þó enn grunaður í málinu.
Í bókinni kemur fram að lögreglan hafi fundið gögn frá 2012, í tölvu sem er talin hafa verið í eigu Anne-Elisabeth, varðandi umsókn um skilnað.