Á miðvikudaginn tilkynntu yfirvöld að 2.564 hefðu látist af völdum COVID-19 síðasta sólarhringinn en meðaltal síðustu sjö daga á undan var 992 dauðsföll. Þetta kemur fram í tölum frá Johns Hopkins háskólanum.
Þetta eru flest andlát á einum sólarhring síðan 19. febrúar.
Hvað varðar smit þá voru 73.200 ný smit staðfest á miðvikudaginn en meðaltal síðustu sjö daga á undan var 65.556 smit á sólarhring.
Sjúkrahúsinnlögnum hefur einnig fjölgað aðeins og voru um 5.000 á sólarhring síðustu sjö daga og er það um 2,7% aukning miðað við vikuna þar á undan.
En góðu tíðindin eru að það er bólusett af miklum móð. Að meðaltali eru þrjár milljónir skammta af bóluefnum gefnar á dag núna og er það 8% aukning frá síðustu viku. Nú hafa um 110 milljónir Bandaríkjamanna fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni.
Rochelle Walensky, forstjóri bandarísku smitsjúkdómastofnunarinnar, segir þetta gleðileg tíðindi en hefur um leið áhyggjur af aukningu smita og innlagna á sjúkrahús. „Um allt land heyrum við um smit sem tengjast leikskólum og íþróttaiðkun ungmenna. Sjúkrahúsin taka á móti sífellt fleira fólki á fertugs og fimmtugsaldri sem er alvarlega veikt,“ sagði hún og hvatti fólk til að forðast íþróttaiðkun innanhúss og þátttöku í fjölmennum samkomum.