Að mati Phillip Khokar, fréttaritara Danska ríkisútvarpsins í Asíu, er ástæðan önnur en sú sem stjórnvöld gefa upp. Hann segir að stjórnvöld í Norður-Kóreu glími nú við ýmis vandamál og að það væri erfitt fyrir þau, út frá pólitísku sjónarmiði, að senda íþróttamenn til Japan því Japanir séu taldir með verstu óvinum Norður-Kóreu.
Meðal þeirra vandamála sem stjórnvöld í Norður-Kóreu glíma við er að landamæri landsins hafa verið algjörlega lokuð síðan í janúar til að reyna að halda kórónuveirunni frá landinu. Þetta hefur haft í för með sér að matvælainnflutningur frá Kína hefur nær algjörlega lagst af. Alþjóðleg hjálparsamtök segja að þetta valdi því að hungursneyðin í landinu nálgist nú sama stig og á tíunda áratugnum en þá er talið að allt að tvær milljónir landsmanna hafi látist úr hungri.
Lokun landamæranna hefur einnig haft í för með sér að nær engir útlendingar eru nú í landinu. Flestir alþjóðlegir fjölmiðlar hafa kallað starfsfólk sitt heim og flestir stjórnarerindrekar hafa einnig yfirgefið landið. Khokar segir að af þessum sökum sé erfitt að öðlast yfirsýn yfir stöðu mála í landinu. Hann segir að flest bendi til að heimsfaraldurinn hafi komið illa við landið sem á í erfiðleikum með að brauðfæða alla og tryggja landsmönnum eðlilegt líf. Það að hætt hafi verið við þátttöku á Ólympíuleikunum verði að skoða í þessu ljósi, norður-kóreskt samfélag berjist nú einfaldlega fyrir lífi sínu. Hann segist einnig telja að svo mikill skortur sé á ýmsum hráefnum og vörum í landinu að það geti reynst erfitt að útvega nægt eldsneyti fyrir flugvél til að flytja íþróttamennina til Japan. Það er því kannski ekki beinn ótti við smit sem heldur Norður-Kóreu frá þátttöku.