Sky News skýrir frá þessu og hefur eftir talsmanni háskólans en vísindamenn við hann þróuðu bóluefnið í samstarfi við vísindamenn hjá AstraZeneca. Tilraunir hafa staðið yfir með bólusetningar á breskum börnum að undanförnu. Talsmaðurinn sagði að „engar áhyggjur“ væru uppi um öryggið í rannsókninni.
EMA er að rannsaka hvort tengsl séu á milli bóluefnisins og blóðtappa hjá fólki en nokkrir hafa látist eftir að hafa verið bólusettir með bóluefni AstraZeneca.
Oxfordháskóli tilkynnti í febrúar að tilraunir myndu hefjast í febrúar á 300 börnum sem myndu fá bóluefnið. En nú hefur hlé verið gert á þessum tilraunum á meðan beðið er eftir frekari upplýsingum frá EMA.
Ekki hefur verið sýnt fram á bein tengsl á milli bóluefnisins og blóðtappa en í gær sagði yfirmaður hjá EMA að tengsl væru þar á milli. Stofnunin dró í land í gærkvöldi og sagði að enn hefði ekkert verið staðfest í þeim efnum og að málið væri enn í rannsókn. Reiknað er með að EMA sendi frá sér tilkynningu í dag eða á morgun.