Serbar hafa tryggt sér tæplega 15 milljónir skammta af bóluefni en 7 milljónir búa í landinu. En aðeins fjórðungur þeirra Serba, sem eiga rétt á bólusetninga, hefur viljað láta bólusetja sig fram að þessu.
Mörg bóluefni eru í notkun í landinu, þar á meðal frá Pfizer og AstraZeneca en einnig rússneska Sputnik V og kínverska Sinopharm.
Síðustu tvær vikurnar í mars létu um 12.000 Serbar bólusetja sig og voru þá helmingi færri en síðustu tvær vikurnar í febrúar að sögn yfirvalda. Predrag Kon, einn helsti farsóttarfræðingur landsins, segir að ástæðan fyrir þessu sé að mikið sé um að röngum upplýsingum um bóluefni og bólusetningar sé dreift á netinu. Á bak við þetta standi hópar sem eru á móti bóluefnum. Kon segir að tvö prósent andstæðinga bólusetninga geti auðveldlega haft áhrif á allt að helming þeirra sem hafa ekki enn tekið afstöðu til bólusetninga.
Þetta hefur orðið til þess að bólusetningaáætlun landsins hefur verið breytt og nú geta landsmenn bara mætt í bólusetningu þegar þeir vilja, nóg er til af bóluefnum.
Aleksander Vucic, forseti, hefur hvatt þjóð sína til að láta bólusetja sig. „Ég bið ykkur. Látið bólusetja ykkur. Við eigum bóluefni og fáum meira. Ég bið ykkur, í guðs nafni, að láta bólusetja ykkur,“ sagði hann í síðustu viku.