Sérfræðinganefndin, Joint Research Centre (JRC), segir í skýrslunni að greining hennar hafi ekki leitt í ljós neinar vísindalegar sannanir fyrir að kjarnorka sé skaðlegri fyrir heilsu manna eða umhverfið en önnur form raforkuframleiðslu.
Skýrslan er tæplega 400 síður og í henni er farið yfir eitt og annað hvað varðar kjarnorku, meðal annars umhverfisáhrif, geislavirkni, hættuna á óhöppum og það sem varðar úrgangsmál. Skýrslan er hluti af vinnu framkvæmdastjórnarinnar við að þróa kerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Kerfinu er ætlað að flokka ákveðna fjárfestingamöguleika þannig að bæði einkaaðilar og opinberir aðilar geti séð hversu sjálfbærir þeir eru.
Miklir fjárhagslegir hagsmunir eru undir í þessu, þar á meðal í kjarnorku- og gasiðnaðinum sem berjast fyrir að verða viðurkenndir sem sjálfbærir. Að auki koma umhverfisverndarsamtök við sögu og þeir sem vinna að þróun vind-, sólar- og vatnsorku. Baráttan um flokkunarkerfið hefur staðið yfir í þrjú ár en á síðasta ári náðist pólitískt samkomulag um að fresta því að taka afstöðu til stöðu kjarnorku og náttúrugass í því.
Í skýrslunni kemur fram að breið vísindaleg og tæknileg samstaða sé um að geymsla geislavirkra úrgangsefna frá kjarnorkuverum á miklu dýpi ofan í jörðinni sé, út frá núverandi vitneskju, viðeigandi og örugg aðferð til að einangra efnin frá umhverfinu í mjög langan tíma.
Hvað varðar óhöpp segir í skýrslunni að „ekki sé algjörlega hægt að útiloka“ að óhöpp verði en „mjög litlar líkur séu á því“. Segja sérfræðingarnir að hægt sé að draga enn frekar úr þessari hættu með því til dæmis að hafa þetta í huga við þróun og byggingu kjarnorkuvera. Þeir leggja áherslu á að kjarnorkuver séu byggð á allt annan og öruggari hátt nú en kjarnorkuverið í Chernobyl í Úkraínu en þar varð kjarnorkuslys 1986.