Á upptökunni heyrst Zarif kvarta undan því hvernig Íranski byltingarvörðurinn og Qassem Soleimani, fyrrum yfirmaður byltingarvarðarins, hafi í raun stýrt utanríkismálum þjóðarinnar og hann hafi sjálfur lítið haft að segja um stefnuna. Soleimani, sem Bandaríkjamenn réðu af dögum í Írak í janúar á síðasta ári, reyndi að sögn Zarif að koma í veg fyrir samning Írana við umheiminn um kjarnorkumál sín.
Hann segir einnig að byltingarvörðurinn hafi logið að sér dögum saman eftir að liðsmenn hans skutu úkraínska farþegaflugvél niður í Teheran á síðasta ári. 176 manns létust.
Á upptökunni staðfestir hann einnig orðróm um að byltingarvörðurinn hafi sent vopn og hermenn til Sýrlands með farþegaflugvélum Iran Air. Byltingarvörðurinn er sjálfstæður her sem starfar við hlið hefðbundins herafla landsins. Hann segir einnig að árangri í samskiptum við önnur ríki hafi oft verið „fórnað“ fyrir hernaðarlegan ávinning á jörðu niðri.
Ekki er vitað hver lak upptökunni sem er þriggja klukkustunda löng. Hún var send til BBC og fleiri miðla. Hún virðist vera hluti af myndbandsviðtali, sem var tekið í febrúar, sem var hluti af sagnfræðiverkefni um Hassan Rouhani, forseta, og átti fyrst að birta upptökuna eftir mörg ár. Talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins sagði að upptakan væri „klippt til eftir hentugleika“. Hvað sem því líður er ljóst að hún er eldfim pólitískt séð og þá sérstaklega vegna þess að Íran reynir nú að ná samningum við Bandaríkin um að taka kjarnorkusamninginn upp á nýjan leik. Þess utan eru forsetakosningar í Íran í júní.
Ekki er ljóst hvaða áhrif upptakan hefur á stöðu Zarif en hann hefur sagt að hann ætli ekki að bjóða sig fram til forseta. Harðlínumenn í landinu treysta honum ekki og margir þeirra hafa krafist afsagnar hans í kjölfar lekans. Hann er almennt talinn tilheyra hófsömum hluta valdamanna í landinu. Hann hefur mikið verið gagnrýndur í fjölmiðlum, sem byltingarvörðurinn stýrir og eru á móti öllum samningaviðræðum við Vesturlönd, fyrir samninginn um kjarnorkumál Írans.
Á upptökunni segir Zarif einnig að Soleimani hafi farið til Moskvu 2015 til að vinna með Rússum að því að „eyðileggja árangur okkar“ og á þar við kjarnorkusamninginn. Hann nefnir einnig mál frá 2016 þegar byltingarvörðurinn hafði 10 bandaríska sjóliða í haldi um hríð. Hann segir að Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sé sérstaklega virkur í málum sem þessum því það þjóni ekki hagsmunum Rússa að Íran eigi í góðum samskiptum við Vesturlönd. „Varðandi fjandskapinn við Vesturlönd þá höfum við alltaf þörf fyrir Rússland og Kína. Það er engin samkeppni,“ heyrist hann segja.