Búið er að bólusetja næstum alla fullorðna íbúa Gíbraltar og er lífið komið ansi nálægt því sem það var fyrir heimsfaraldur. Það má því segja að „Operation Freedom“ (Frelsisaðgerðin) hafi gengið upp.
Á börum skálar fólk, kaffihús og veitingastaðir eru opnir og það má bjóða fjölda fólks í brúðkaupsveislur og aðrar veislur. Einnig er búið að slaka á kröfum um notkun andlitsgríma utandyra en það var gert í mars en eins og í sumum öðrum löndum í sunnanverðri Evrópu var gerð krafa um notkun þeirra utanhúss.
El Pais segir að íbúum Gíbraltar sé létt nú þegar bólusetningu er lokið en þeir séu líka varkárir því ástandið á Spáni sé ekki gott hvað varðar smit og bólusetningar. Búið er að bólusetja 21% Spánverja og hafa 7,7% þjóðarinnar lokið bólusetningu. Spænsk yfirvöld stefna á að vera búin að bólusetja helming landsmanna í lok júlí. Um 47 milljónir manna búa á Spáni.
Vegna þess hversu fáir hafa verið bólusettir á Spáni hafa yfirvöld á Gíbraltar ákveðið að bjóða 15.000 manns, sem búa á Spáni en sækja vinnu á Gíbraltar, bólusetningu.
Yfirvöld á Gíbraltar segja að sá mikli munur sem er á stöðu bólusetninga þar og á Spáni geti veitt „einstakt“ tækifæri til rannsókna. Nú þegar eru rannsóknir í gangi þar sem rannsakað er hvernig veiran breiðir úr sér í samfélagi þar sem búið er að bólusetja stærsta hluta íbúanna. Ekki er ólíklegt að þessar rannsóknir komi allri heimsbyggðinni að gagni að sögn El Pais.
Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, tilkynnti 18. mars að bólusetningum væri lokið á Gíbraltar sem væri þar með fyrsti staðurinn í heiminum til að bólusetja alla sem það vildu. Um 3% þeirra sem var boðið upp á bólusetning á Gíbraltar afþökkuðu boðið að sögn CNN.