Cottingham hefur viðurnefnið „Torso Killer“ (Búk morðinginn) vegna þess að hann var vanur að skera útlimina af fórnarlömbum sínum og skilja aðeins búkinn eftir.
Cottingham var færður fyrir dómara í gær og játaði hann fyrir honum að hafa myrt Mary Ann Pryor, 17 ára, og Lorraine Marie Kelly, 16 ára, í ágúst 1974. Þær fóru frá heimilum sínum í North Bergen þann 9. ágúst og ætluðu í verslunarmiðstöð í um 20 km fjarlægð. Þar ætluðu þær að kaupa sér sundfatnað fyrir fyrirhugaða ferð til Jersey Shore. Lík þeirra fundust fimm dögum eftir að þær hurfu.
Cottingham játaði að hafa rænt þeim og farið með á hótel þar sem hann hélt þeim föngnum. Þar nauðgaði hann þeim áður en hann drekkti þeim í baðkari.
Cottingham afplánar nú lífstíðarfangelsisdóm í alríkisfangelsi í New Jersey fyrir önnur morð. Hann segist hafa myrt um 100 manns en lögreglunni í New York og New Jersey hefur tekist að tengja hann við 11 fram að þessu og eru morðin á Pryor og Kelly meðtalin. Lögreglan og saksóknarar telja öruggt að hann hafi myrt mun fleiri. Sky News skýrir frá þessu.
Cottingham hefur verið í fangelsi síðan 1981 en á síðasta ári játaði hann á sig þrjú morð sem voru framin seint á sjöunda áratugnum.
Saksóknarar segja að samið hafi verið við Cottingham í tengslum við játningar hans nú og fái hann tvo lífstíðardóma til viðbótar í júlí.