Hann heitir Robert Chapman. Það var stefnumóttappið Bumble sem varð honum að falli en þar skrifaði hann: „Ég tók þátt í árásinni á þinghúsið.“ CNN skýrir frá þessu.
Væntanlega hefur hann skrifað þetta til að ganga í augun á þeim sem hann var að skrifast á við en óhætt er að segja að það hafi ekki borið árangur. Sá sem hann var að skrifast á við svaraði honum að honum/henni fyndist ekki vera neitt sem tengdi þau/þá saman.
Samkvæmt dómsskjölum sendi Chapman skilaboð til viðkomandi viku eftir árásina á þinghúsið. Móttakandi skilaboðanna setti sig fljótlega í samband við FBI eftir að Chapman skýrði frá þátttöku sinni í árásinni á þinghúsið en fimm manns létust í henni.
Chapman var einnig mjög virkur á Facebook en þar notaði hann nafnið Erick. Þar skrifaði hann meðal annars: „Ég er inni í þinghúsinu.“
Hann hefur verið kærður fyrir þátttöku í árásinni en auk hans hafa tæplega 400 til viðbótar verið kærðir.