Lögreglan reyndi strax að ná sambandi við eiganda bílsins og hringdi í hann en þá heyrðu lögreglumennirnir síma hans hringja inni í bílnum. Ætlunin var að ræða við hann og fá upplýsingar um hvort ökumaðurinn hefði fengið leyfi til að aka bílnum.
Þar sem sími bíleigandans var í bílnum fóru lögreglumenn að heimili hans til að ræða við hann. Þegar þeir komu inn á heimili hans fundu þeir manninn látinn. Hann hafði verið myrtur að sögn Aftonbladet sem segist hafa heimildir fyrir að hann hafi orðið fyrir miklu ofbeldi en blaðið skýrði frá þessu í gærkvöldi.
Málið breyttist því í morðrannsókn og ökumaðurinn, sem hafði stungið af á hlaupum, var nú grunaður um morð. Aftonbladet hefur eftir heimildarmönnum að það hafi verið algjör heppni að hinn grunaði náðist og að upp komst að bíleigandinn hafði verið myrtur. Hinn grunaði hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Það flækir málið enn frekar að ekki er vitað hver hinn grunaði er því hann hefur ekki viljað veita neinar upplýsingar um það. Lögreglan telur hann vera 20 til 30 ára en fórnarlambið var karlmaður, 55 til 60 ára að sögn lögreglunnar.
Lögreglan er einnig að rannsaka hvort hinn grunaði tengist fleiri afbrotum.
Lögreglan veit ekki hvenær fórnarlambið var myrt.
Hinn grunaði neitar sök.