Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að nú hafi 33 milljónir Breta fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni og 11 milljónir hafi lokið bólusetningu. Niðurstöður breskra rannsókna sýna að einn skammtur af bóluefni frá Pfizer/BioNTech eða AstraZeneca fækkar kórónuveirusmitum um tvo þriðju hluta og COVID-19 veikindum um 74%. Hjá þeim sem hafa fengið tvo skammta af bóluefni Pfizer/BioNTech fækkaði smitum um 70% og COVID-19 veikindum fækkaði um 90%. Fram kemur að fólk, sem er með sjúkdómseinkenni, sé mun líklegra til að smita út frá sér.
Enn er verið að afla gagna um áhrif tveggja skammta af AstraZeneca á fólk en vísindamenn segja að það liggi nú þegar fyrir að bæði bóluefnin virki vel.
Niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem hefur ekki verið ritrýnd, benda að mati Sarah Walker, prófessors við Oxfordháskóla og aðalhöfundar rannsóknarinnar, til að bóluefnin hægi á útbreiðslu veirunnar. Hún sagðist vera „hæfilega bjartsýn“ á að bóluefni geti í framtíðinni stýrt faraldrinum. Hún sagði að stöðvun samfélagsstarfsemi sé ekki vænlegur kostur sem langtímaaðgerð og að bóluefni séu „augljóslega eina leiðin til að stjórna faraldrinum í framtíðinni“.
Hún sagði einnig að veiran væri ansi góð við að koma okkur á óvart og að sá möguleiki verði alltaf til staðar að eitthvað fari úrskeiðis á nýjan leik.