„Ég er veit núna hversu marga skammta er verið að framleiða og ég veit hversu margir skammtar verða afhentir vikulega. Þess vegna get ég með mikilli vissu sagt að um miðjan júlí verðum við komin með nauðsynlegt magn til að bólusetja 70% íbúanna,“ sagði Breton í samtali við Le Figaro.
Það hefur haldið aftur af bólusetningum í ESB að mikið af bóluefnum hefur verið flutt frá ESB til ríkja utan sambandsins.
Á bak við fullyrðingar Breton liggur sú staðreynd að búið er að auka framleiðslu bóluefna í Evrópu mikið. „53 verksmiðjur í ESB framleiða nú bóluefni. Heimsálfan okkar er nú stærsti bóluefnaframleiðandi heims á eftir Bandaríkjunum,“ sagði hann einnig.
Bóluefnið frá Pfizer/BioNTech ber bólusetningarnar í ESB uppi en upphaflega var gert ráð fyrir að bóluefnið frá AstraZeneca yrði mest notað en fyrirtækið hefur ekki afhent það magn bóluefnis sem samið hafði verið um.
En þrátt fyrir að ESB-ríkin eigi nóg bóluefni í júlí til að geta bólusett 70% íbúa sinna er það ekki ávísun á að svo verði. Breton sagði að það velti á getu yfirvalda í hverju landi til að bólusetja fólk nægilega hratt. 12 aðildarríki hafa að hans sögn tilkynnt að þau verði búin að bólusetja 70% íbúa um miðjan júlí.