Rúmlega 20 milljónir búa í borginni. Álagið á sjúkrahúsin er mikið og þau vantar fleiri legurými, súrefni og mikilvæg lyf. Nú eru tæplega 100 sjúkrarúm laus í borginni svo staðan er mjög alvarleg.
Nú hafa rúmlega 15 milljónir Indverjar greinst með kórónuveiruna en aðeins í Bandaríkjunum hafa fleiri greinst. En ef miðað er við íbúafjölda er Indland ekki nálægt toppnum hvað varðar fjölda smitaðra því tæplega 1,4 milljarðar búa í landinu.
Rétt er að hafa í huga að erfitt getur verið að bera saman smittölur á milli landa því misjafnt er hvernig sýnatöku er háttað og hversu mörg sýni eru tekin.
Vaxandi gagnrýni er á viðbrögð ríkisstjórnar Narendra Modi við heimsfaraldrinum en önnur bylgja hans ríður nú yfir Indland. Mörg hundruð þúsund manns hafa að undanförnu tekið þátt í trúarhátíðum og kosningafundum en slíkt er ekki til þess fallið að halda aftur af útbreiðslu faraldursins. Fyrr í mánuðinum voru sóttvarnaaðgerðir hertar, starfsemi fjölda fyrirtækja og stofnana var stöðvuð og útgöngubann var sett á á sumum svæðum. Ríkisstjórnin segir að smit færist í aukana vegna þess hversu þéttbýlar stórborgirnar eru og einnig kemur almenn andstaða við notkun andlitsgríma við sögu.