„Við vitum, frá reynslu okkar síðasta haust, hvað gerist ef við bregðumst ekki hratt við,“ sagði Jens Spahn, heilbrigðisráðherra á fréttamannafundi í gær.
Á þriðjudaginn samþykkti ríkisstjórnin lagafrumvarp um nýjar sóttvarnareglur sem eiga að gilda á landsvísu, þar á meðal er útgöngubann að næturlagi. Þingið hefur ekki enn samþykkt þetta en Spahn vill að sambandsríkin byrji strax að innleiða þessar reglur. „Tíminn líður. Nú höfum við tækifæri til að grípa til aðgerða. Enginn á að bíða eftir samþykkt sambandsþingsins,“ sagði hann að sögn Die Welt.
Sambandsríkin 16 hafa mikið sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt en nýju lögin munu þýða að þau munu ekki lengur hafa lokaorðið þegar kemur að kórónuveirunni. Lögin eru sögð vera „neyðarúrræði“ en auk útgöngubanns kveða þau á um að loka skuli öllum verslunum nema þeim sem selja algjörar nauðsynjavörur.
Robert Koch Institut, sem er smitsjúkdómastofnun Þýskalands, telur að álagið á sum sjúkrahús sé nú komið að þolmörkum. Spahn sagði að það væri forgangsverkefni að koma í veg fyrir að álagið á heilbrigðiskerfið verði of mikið og það verði að hlusta á ákall gjörgæslulækna og taka það alvarlega. Nú liggja um 5.000 sjúklingar á gjörgæsludeildum landsins en reiknað er með að sjúklingarnir verði orðnir 6.000 í lok mánaðarins.