Óhætt er að segja að viðskiptavinir hafi tekið þessu fagnandi því salan á áfengi var 114% meiri en á sama degi 2019. Þetta kemur fram í tölum frá gagnafyrirtækinu CGA.
Samanburðurinn er gerður við sama dag 2019 því sami dagur í fyrra er ekki marktækur því þá hafði verið gripið til sóttvarnaaðgerða vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
Þetta er auðvitað mikil söluaukning og þá sérstaklega í ljósi þess að aðeins 40% af 41.100 börum, veitingastöðum og pöbbum á Englandi opnuðu á mánudaginn. Miðað við áætlanir stjórnvalda geta aðrir staðir, sem ekki eru með útisvæði, opnað 17. maí.
Það virtist ekki hafa mikil áhrif á fólk að kalt var í veðri aðfaranótt mánudags en opna mátti staðina á miðnætti. Margir lögðu á sig að standa í röð til að bíða eftir sæti.
Sala á mat dróst saman um 12% miðað við sama mánudag 2019 en samanlagt var sala á áfengi og mat 60% meiri á mánudaginn en sama mánudag 2019.