„Kennsl hafa verið borin á nýjan sjúkdóm og tilvist hans staðfest og nú vitum við að það er bóluefnið sem veldur þessum sjúkdómi,“ sagði hann í samtali við TV2.
Sjúkdómurinn er sjaldgæfur en 1 af hverjum 40.000, sem er bólusettur með bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni, getur átt von á að fá aukaverkanir af völdum bóluefnisins. Þær aukaverkanir hafa fengið nafnið VITT sem stendur fyrir „Vaccineinduceret immun trombotisk trombocytopeni“.
Þetta kom fram á fréttamannafundi danskra heilbrigðisyfirvalda í gær þar sem tilkynnt var að Danir séu hættir að nota bóluefnið frá AstraZenece. VITT veldur því að líkaminn myndar ekki mótefni gegn COVID-19 en myndar þess í stað mótefni gegn blóðflögum sem sjá um storknun blóðs. Mótefnið lætur blóðflögurnar þjappa sér saman í klumpa sem síðan valda blóðtappa og þeir geta orðið fólki að bana. Tengsl AstraZeneca og VITT hafa verið staðfest af dönskum, norskum og þýskum vísindamönnum.